Spurningar og svör

Margar spurningar koma upp í hugann hvað varðar ófrjósemi og meðferðir. Hér að neðan koma svör við nokkrum af algengustu spurningunum. Ef þú finnur ekki svarið sem þú ert að leita eftir er þér velkomið að hafa samband við okkur og við svörum spurningum þínum eftir bestu getu. Póstfang: reykjavik@livio.is

 

Tíminn fyrir meðferð

Skiptir aldur máli?

Konur upp að 44 ára aldri geta komið í meðferð með eigin eggjum.

Eftir 44 ára aldur og upp að 49 ára er hægt að koma í meðferð með gjafaeggjum.

Hvað er tíðahringur?

Einn tíðahringur er tíminn frá fyrsta degi blæðinga fram að næsta fyrsta degi blæðinga, oftast 26-31 dagar.

Hver er fyrsti dagur tíðahringsins?

Dagurinn sem rauðar blæðingar byrja.

Hversu langan tíma tekur meðferðin?  

Meðferðir taka um 2-4 vikur.

Á ég að taka út öll lyfin strax?

Nei, bíddu þar til þið eruð komin með leiðbeiningar um meðferðina.

Hve mikið kosta lyfin?

Erfitt að svara, fer eftir lyfjaverslunum og hvar þú ert stödd í greiðsluþátttökukerfinu.

Á ég að taka fólinsýru?

Mælt er með að konur taki fólinsýru 400 microgrömm daglega auk fólatríks matar. Rannsóknir hafa sýnt að fólat getur dregir úr hættu á alvegarlegum fósturskaða á miðtaugakerfi.

 

Örvunarmeðferð

Get ég unnið og lifað lífinu eins og venjulega?

Já allt eins og venjulega.

Má ég fljúga?

Má ég nota áfengi?

Í hófi.

Má ég lita á mér hárið?

Er óhætt að stunda kynlíf á meðan á meðferð stendur?

Þegar eggjastokkarnir eru stækkaðir eins og gerist við örvun þeirra geta samfarir valdið verkjum. Hjá sumum getur orðið frjóvgun á eigin eggjum sem getur leitt til fjölburaþungunar. Til þess að forðast það skyldi ekki stunda óvarið kynlíf vikuna kringum eggheimtu.

Get ég haldið áfram að æfa?

Dagana fyrir og vikuna eftir eggheimtu þarf að forðast miklar líkamsæfingar. Gott er að hlusta á líkamann og fara varlega í æfingar.

Má ég fara í heitan pott, sund og bað?

Hefur hormónameðferðin áhrif á eggjaforðann þannig að ég mun fara fyrr á breytingarskeiðið en ella?

Nei.

Hvernig mun mér líða í meðferðinni?

Flestum líður ágætlega í meðferðinni. Það er þó algengt að upplifa meiri þreytu en vanalega, finna fyir þrýstingi í kviðnum og útferð getur aukist. Sumar konur finna fyrir höfuðverk en óhætt er að taka verkjatöflur sem innihalda paracetamól. Margir finna fyrir talsverðu andlegu álagi í og kringum meðferðartímann.

Á meðan á glasameðferð stendur þarf að mæta í 1-3 stuttar ómskoðanir til þess að fylgjast með vexti eggbúanna og ákvarða um hvenær eggheimta er gerð.

Hvaða aukaverkanir eru algengar í hormónameðferðinni?

Flestir finna ekki fyrir neinum eða mjög vægum aukaverkunum. Þegar eggbúin stækka undirlok meðferðarinnar er ekki óalgengt að finna fyrir eymslum og þrýstingi neðarlega í kviðnum. Einnig er algengt að fá aukna útferð og eymsli í brjóstin. Í bælingarmeðferð þar sem lyfið Suprecur er notað geta aukaverkanir verið í formi höfuðverkja, svitakófa og almenns pirrings.

Hvað er oförvun?

Sjaldgæf aukaverkun meðferðar kallast oförvunarheilkenni (OHSS – ovarian hyperstimulation syndrome) eftir að mörg eggbú stækka hjá konum. Einkennin koma þá fram eftir að gefin hefur verið egglosunarsprautan (Ovitrelle) en er yfirleitt hægt að forðast með breytingum á meðferðinni.

Hvað skal ég gera ef blæðir milli uppsetningar og þungunarprufu?

Smáblæðingar eru ekki óalgengar og alveg hættulausar. Konan gæti samt verið þunguð. Ríkulegri blæðingar sem líkjast tíðablæðingum gefa sennilegast til kynna að þú sért ekki þunguð. Það er þó mikilvægt að ganga úr skugga um hvort svo sé með því að taka þungunarpróf samkvæmt fyrirmælum. Ef það er neikvætt er óhætt að hætta töku progestrons.

 

Eggheimta

Hversu langan tíma tekur eggheimtanog er hún sársaukafull?

Sjálf eggheimtan tekur u.þ.b 20- 30 mín. Þú færð góða verkjastillingu og flestar konur finna fyrir eins og tíðaverkjum á meðan henni stendur.

Má fara að vinna eftir eggheimtuna?

Daginn sem eggheimtan er framkvæmd er ekki ráðlegt að vinna þar sem viðvera á deildinni er 2-3 klukkustundir og svo má búast við þreytu og einhverjum kviðverkjum þann dag.

Verða eggjastokkarnir fyrir skaða við eggheimtuna?

Nei, hættan á sýkingum og/eða blæðingu er mjög lítil.

Eru örugglega egg í öllum eggbúum?

Það er hámark eitt egg í hverju eggbúi. Það kemur fyrir að eggbúin eru tóm.

Má ég keyra á eggheimtudegi?

Nei þar sem þú færð sterk verkjalyf í eggheimtunni.

Hvenær er uppsetning fósturvísis eftir eggheimtuna?

Skv. vinnureglu er uppsetning er gerð 2, 3 eða 5 dögum eftir eggheimtu. Það fer eftir fjölda eggja sem nást við eggheimtu, einnig hefur fjöldi frjóvgaðra eggja áhrif á ákvörðunina. Ef fimm eða fleiri egg frjóvgast þá er sett upp á degi 5 annars á degi 2 eða 3 og umfram fósturvísar ræktaðir áfram.

Hvenær á að skila sæðissýni?

Skila skal sýni sama morgun og eggheimta er gerð. Hugsanlega gæti þurft að skila öðru sýni um morguninn. Sjá nánar undir sæðisrannsókn og sæðisvinnsla hér á síðunni.

 

Tíminn eftir eggheimtu

Er eðlilegt að finna fyrir verkjum eftir eggheimtu?

Það er eðlilegt að finna fyrir verulegum „tíðaverkjum“ eftir eggheimtu. Daginn eftir eggheimtu er verkurinn mun minni en sumar konur finna fyrir vægum verkjum í nokkra daga. Hitapokar á neðri hluta kviðar hjálpa oft til við að lina verki. Ef þörf krefur er hægt að taka paracetamol.

Er eðlilegt að blæða eftir eggheimtu?

Já, eftir að vera búin að liggja út af og standa svo upp þá getur blætt svolítið fyrsta daginn. Daginn eftir er blæðingin hætt en svolítið gamalt blóð getur ennþá verið að skila sér og valdið brúnleitri útferð. Það er alveg eðlilegt.

 

Uppsetning fósturvísis

Hvenær festir fósturvísirinn sig í leginu?

Fósturvísirinn festir sig tæplega viku eftir eggheimtuna.

Er hægt að velja hvort settir séu upp einn eða tveir fósturvísar?

Nei, reynt er að forðast fjölburameðgöngur þar sem þeim fylgir mun meiri áhætta en einburum. Læknir metur líkurnar á hættu á tvíburaþungun.

Má ég fara í sund eftir fósturfærsluna?

Ekki fyrstu tvo dagana.

Þarf ég að liggja út af eftir fósturfærsluna?

Nei, daginn sem fósturfærsla er gerð er óhætt að vinna eins og venjulega

Hversu langur tími líður þar til hægt er að vita niðurstöður?

Þungunarpróf er tekið u.þ.b. tveimur vikum eftir. Þú færð próf og nákvæma dagsetningu frá okkur. Milvægt er að taka þungunarpróf þó einhver blæðinga hafi komið.

Annað

Eru börn fædd eftir glasameðferð í einhverri aukinni áhættu?

Áhættan við glasameðferð er afar lítil bæði fyrir mæður og börn.

Hversu viss get ég/við verið um að fósturvísirinn sem settur er upp sé örugglega minn/okkar?

Eggin, sáðfrumurnar og fósturvísarnir ykkar eru varðveitt í skálum sem eru merktar með nafni og kennitölu. Það er farið yfir nafn og kennitölu í hvert sinn sem eitthvað er átt við skálarnar. Við fósturfærslu er alltaf farið yfir nöfn og kennitölur og borið saman við skálarnar.

Ef meðferð ber ekki árangur hversu fljótt getum við reynt aftur?

Ef gerð er meðferð með frystum fósturvísum sem ekki heppnast er yfirleitt hægt að koma strax aftur ef þess er óskað. Ef glasameðferð hefur ekki borið árangur og engir fósturvísar farið í frysti er reynt að hefja meðferð sem fyrst.

Hvernig er meðferð fyrir uppsetningu á frystum fósturvísi?

Uppsetning á frystum fósturvísi er oftast gerð í náttúrulegum tíðahring. Þá miðast uppsetningin við egglos og gerð 6 dögum eftir jákvætt egglospróf.

Hversu oft er hægt að frysta fósturvísa eftir glasameðferð?

Í tæplega helmingi meðferða verða til umfram fósturvísar sem hægt er að frysta.

Hversu lengi geta fósturvísarnir verið í frysti?

Skv. íslenskum lögum má geyma frysta fósturvísa í allt að 35 ár.

Hversu lengi geta frystar kynfrumur (egg og sæði) verið í frysti?

Skv. íslenskum lögum má geyma frystar kynfrumur í allt að 50 ár.

Hvað verður um umfram fósturvísa sem ekki eru notaðir?

Ef þið eigið fósturvísa eftir í frysti þegar þið ákveðið að hætta meðferðum hjá okkur getið þið óskað eftir að þeim verði fargað. Það er ekki leyfilegt að gefa fósturvísa.

Hver á fósturvísa eftir sambandsslit/skilnað eða fráfall maka?

Fósturvísum er þá fargað og það er nóg að annar aðilinn óski þess við sambandsslit/skilnað. Eyðublað þess efnis má finna hér á síðunni.

 

Slóðar: