Glasafrjóvgun

Glasafrjóvgun er leið til frjóvgunar þar sem bæði egg og sáðfrumur eru meðhöndlaðar utan líkamans.

Hormónaörvun er gerð til að auka fjölda eggbúa í eggjastokkum. Meðferð byrjar oftast með daglegri sprautugjöf snemma í tíðarhringnum. Seinna bætist annað sprautulyf við sem kemur í veg fyrir að líkaminn komi af stað egglosi of snemma. Fylgst er með örvuninni með leggangasónar. Þegar eggbú hafa náð ákveðinni stærð er gefin sprauta eða nefsprey, sem hjálpar eggjunum að þroskast og verða tilbúin til frjóvgunar. Undir seinni hluta örvunarinnar getur orðið vart við spennu og/eða eymsli í kvið, þar sem eggjastokkar eru orðnir stórir. Meðferðin tekur um það bil tvær vikur.

Á eggheimtudegi eru eggin sótt með litlu inngripi og þau geymd við kjöraðstæður þar til frjóvgun á sér stað. Ef nota á ferskt sæði til frjóvgunar skilar maki sýni sem er unnið til þess að ná bestu sáðfrumunum úr sýninu. Ef nota á frosið sæði, hvort sem frá maka eða gjafa, er það afþítt eftir eggheimtuna. Val á frjóvgunaraðferð byggist á fjölda og hreyfanleika sáðfrumna, lengd ófrjósemi eða annarra undirliggjandi þátta. Að auki getur fyrri meðferðarsaga haft áhrif á ákvarðanatöku.

 

Hefðbundin glasafrjóvgun (IVF)

Við hefðbundna glasafrjóvgun er fyrirfram ákveðið magn af sáðfrumum sett saman við eggin, þar sem sáðfrumurnar sjá sjálfar um að synda að egginu og frjóvga það.

Smásjárfrjóvgun (ICSI)

Við smásjárfrjóvgun er eitt egg í einu frjóvgað undir smásjá með því að koma einni sáðfrumu fyrir inn í egginu með hárfínni glerpípettu.

 

Frjóvgunin gerist venjulega innan 18 klst. Síðan er fósturvísirinn ræktaður í 2-5 daga. Því næst er fósturvísinum komið fyrir í legi konunnar. Séu í boði fleiri fósturvísar af góðum gæðum eftir 5-6 daga ræktun er hægt að frysta þá til síðari nota.