Hvernig gengur þetta fyrir sig?

Fyrsta skrefið er að fylla út heilsufarssögu sem finna má hér á heimasíðunni.

Til þess að geta orðið sæðisgjafi þarft þú að vera við góða heilsu, á aldrinum 23-45 ára og ekki reykja.

Þú mátt ekki sjálfur vera með neinn þekktan arfgengan sjúkdóm eða vera arfberi fyrir neinum þekktum arfgengum sjúkdómum.

Mikilvægt er að þú sért með eðlilegt sæðissýni og að sáðfrumurnar þoli undirbúning, frystingu og þíðingu. Þú munt eiga samtal við lækni og félagsráðgjafa fyrir upplýsingagjöf og mat.

Til þess að geta orðið samþykktur sæðisgjafi þarftu einnig að hafa eðlilega litningarannsókn og ekki vera arfberi fyrir ákveðnum genum. Þar að auki er skimað fyrir klamydiu, lekanda, blóð-, nýrna- og lifrargildum. Þú verður einnig skimaður reglulega fyrir blóðsýkingum á borð við HIV, HLV 1 & 2, Lifrarbólgu B og C ásamt sárasótt. Því er mikilvægt að nota smokkinn ef stunda á kynlíf með nýjum félaga.

Samþykktir sæðisgjafar fá greiðslu sem nemur 7.500 krónur fyrir hverja samþykkta gjöf.

 

Hvernig fer gjöfin fram?

Þú færð bókaðan tíma á læknastofu Livio Reykjavík og skilar þar inn sæðissýni sem síðan er unnið og fryst í fljótandi köfnunarefni.

Geyma þarf sáðfrumurnar í frystikút í 6 mánuði áður en hægt er að nota þær til meðferðar. Telst sæðisgjöf samþykkt eftir endurtekna blóðskimun fyrir HIV og lifrarbólgu að þessum 6 mánuðum liðnum.

Þú getur gefið tvisvar í viku, með minnst 48 klst millibili.

Mælst er til þess að sæðisgjafi gefi á bilinu 10 – 30 sæðisgjafir, jafnvel fleiri  og að þessar gjafir eigi sér stað með stuttu millibili.