Aðferðir við frjóvgun

Tvær mismunandi aðferðir eru notaðar í meðferð við að frjóvga egg;

Hefðbundin glasafrjóvgun (In Vitro Fertilization – IVF) er gerð ef sæðissýnið uppfyllir skilyrði, um fjölda sæðisfrumna og hreyfanleika.  Smásjárfrjóvgun (Intracytoplasmic Sperm Injection – ICSI) er hinsvegar notuð ef sæðissýnið uppfyllir ekki þessi skilyrði.

 

Hefðbundin IVF meðferð – Standard IVF 

Nokkrum klukkustundum eftir eggheimtu er frjóvgun framkvæmd. Ef sæðissýnið uppfyllir skilyrði, um fjölda og hreyfanleika sæðisfrumna er gerð hefðbundin glasafrjóvgun með því að blanda eggjum og sæðisfrumum saman í ræktunarskál.  Sæðisfrumurnar sjá þá sjálfar um að frjóvga eggið. Ræktunarskálin er síðan sett inn í hitaskáp yfir nótt og frjóvgun skoðuð daginn eftir.

Smásjárfrjóvgun – ICSI

Við smásjárfrjóvgun er frjóvgað undir smásjá með því að koma einni sæðisfrumu fyrir inni í egginu.  Áður en smásjárfrjóvgun er gerð þarf að hreinsa næringafrumur utan af egginu með hárfínum pípettum og ensími sem leysir upp bandvef sem heldur svokölluðum cumulusfrumunum saman. Eftir hreinsun er eggjunum komið fyrir í ræktunarskál með litlum ætisdropum sem eru umluktir olíu.  Síðan er halinn brotinn af einni sæðisfrumu og hún veidd upp í hárfína pípettu sem er stungið inn í eggið og það frjóvgað. Ræktunarskálin er svo sett inn í hitaskáp yfir nótt og frjóvgun skoðuð daginn eftir.