Þar sem Livio er hluti af IVI-RMA samsteypunni þá getum við með stolti boðið upp á erfðapróf á fósturvísum í glasafrjóvgun (PGT-A) í samstarfi við JUNO Genetics. Fósturfræðingar okkar hafa verið í stífri þjálfun hjá þeim sem eru í fararbroddi á þessu sviði innan IVI-RMA samsteypunnar og staðist allar prófanir sem krafist er.
Hvað er PGT-A?
PGT-A (Preimplantation Genetic Testing for Aneuploidy) er erfðapróf sem notað er í glasafrjóvgun til að greina litningagalla í fósturvísum áður en þeir eru valdir til uppsetningar. Markmið PGT-A er að velja heilbrigðustu fósturvísana og auka líkur á þungun og fæðingu barns.
Hvernig virkar PGT-A?
Ferlið hefst með hefðbundinni glasafrjóvgun þar sem eggin eru frjóvguð með sæði á rannsóknastofu. Þegar fósturvísarnir hafa náð ákveðnum þroska (venjulega á 5. eða 6. degi) er lítið sýni tekið úr ytri frumum þeirra (trophectoderm). Þetta litla sýni er síðan rannsakað til að greina hvort réttur fjöldi litninga sé til staðar.
Hverjir geta haft gagn af PGT-A?
PGT-A er sérstaklega gagnlegt fyrir:
- Konur 38 ára og eldri, þar sem hættan á litningagöllum eykst með aldri.
- Konur sem lent hafa í endurteknum fósturlátum sem geta stafað af litningagöllum. Með því að velja eðlilega fósturvísa minnka líkur á fósturláti.
- Konur sem eiga að baki margar misheppnaðar frjósemismeðferðir og vilja auka líkur á árangri. PGT-A getur stytt tímann að þungun.
Takmarkanir og áhætta
- Ekki trygging fyrir árangri – þó að PGT-A hjálpi við að velja eðlilega fósturvísa, er ekki hægt að tryggja þungun.
- Mögulegar skekkjur í greiningu – stundum geta verið afbrigðilegar frumur í sýninu sem endurspegla ekki allan fósturvísinn.
- Áhætta tengd sýnatöku – þó að hún sé lítil, er möguleiki á að fósturvísir þoli ekki sýnatöku og verði ónothæfur.
- Ekki greining á öllum erfðasjúkdómum – PGT-A skoðar aðeins litningagalla en ekki sérstaka genagalla.
Á ég að velja PGT-A?
Hvort PGT-A sé rétt fyrir þig fer eftir heilsufarslegum og persónulegum aðstæðum. Ræddu við lækninn þinn um hvort prófið gæti hjálpað í þínu tilviki og hversu miklar líkur eru á að það bæti árangur meðferðarinnar.
PGT-A er öflug tækni sem getur aukið stytt tímann að þungun og fækkað fósturlátum,
en er ekki fyrir alla. Mikilvægt er að vega og meta kosti og galla með sérfræðingum okkar í frjósemi áður en ákvörðun er tekin.