Breyting á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands

3 Jan 2019

Þann 21.desember 2018 gaf Heilbrigðisráðuneytið út nýja reglugerð varðandi greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í tæknifrjóvgunum. Nánast án fyrirvara, aðeins 11 dögum eftir útgáfu gekk reglugerðin í gildi (1. Janúar 2019).

Í ljósi þessa breytist hluti sjúklinga í meðferðargjaldi því nú án fyrirvara. Meðferðargjald og verðskrá Livio Reykjavík er óbreytt og breytingar þessar skapast eingöngu af breytingum á greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Livio Reykjavík harmar mjög að hið opinbera skyldi ekki hafa lengri fyrirvara á þessum breytingum og þau óþægindi sem þessi breyting kann að valda sjúklingum.
Samkvæmt nýju reglugerðinni er greiðsluþátttaka nú:

  1. 5% af fyrsta skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI).
  2. 30% af öðru skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI).
  3. 65% af eftirtöldu:
    a. vegna eggheimtu og frystingu eggfruma þegar um er að ræða konur með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings,
    b. fyrir að þíða egg og frjóvga, sbr. tl. a,
    c. vegna ástungu á eista og frystingu sáðfruma þegar um er að ræða karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings,
    d. vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum/eggfrumum/sáðfrumum, í þeim tilfellum sem tilgreind eru í tölul. a og c, þó að hámarki í 10 ár.

Helstu breytingar eru:

  • Greiðsluþátttaka er ekki háð því hvort parið á saman barn eða ekki
  • 5% (24.000 kr) greiðsluþátttaka er í fyrstu meðferð og mun hluti sjúklings verða 456.000 kr með greiðsluþátttöku SÍ
  • 30% (lækkar úr u.þ.b. 225.000 kr í 144.000 kr) greiðsluþátttaka er í annarri meðferð og mun hluti sjúklings verða 336.000 kr með greiðsluþátttöku SÍ
  • Engin greiðsluþátttaka er í þriðju og fjórðu meðferð og greiðast þær því fullu verði 480.000 kr
  • Konur og karlar með sjúkdóma sem ógna frjósemi fá 65% greiðsluþátttöku í meðferðum sem miða að því að geyma egg/sæði/fósturvísa til framtíðarnota og geymslu þeirra.