Frysting á fósturvísum

Fleiri en einn góður fósturvísir getur komið út úr meðferð.  Góðir fósturvísar sem ekki eru notaðir í meðferðinni eru frystir en samkvæmt íslenskum lögum má geyma frysta fósturvísa í 10 ár að hámarki.

Til eru tvær misumandi frystiaðferðir.  Annars vegar hæg frysting, ,,Slow-Freezing“, og hins vegar glerjun, ,,Vitrification“. Fósturvísarnir eru geymdir í fljótandi köfnunarefni, sem að hefur hitastigið – 196°C, í sérstökum geymslutönkum.

Séð ofan í geymslutank.

Hæg frysting  (Slow freezing)

Með þessari aðferð eru fósturvísar settir í nokkrar mismunandi frystilausnir sem valda því að vatn leitar út úr frumum þeirra.  Við það skreppa frumurnar saman og þola frystinguna án þess að vatnskristallar myndist í umfrymi.  Síðan eru fósturvísarnir sogaðir upp í strá með frystilausn.  Stráinu er komið fyrir í frystitækinu sem sér um að lækka hitastigið rólega niður fyrir – 100 °C og tekur ferlið u.þ.b. 4 klukkustundir.

 

Glerjun (Vitrification)

Þessi aðferð felur í sér að fósturvísirinn er snögg frystur eða glerjaður. Frystingin gerist það snöggt að ekki myndast kristallar í umfryminu heldur storknar það líkt og gler. Eins og við hæga frystingu er fósturvísirinn settur í nokkrar mismunandi frystilausnir til þess að vatnið leiti út úr frumunum. Fósturvísirinn er síðan settur á lítinn spaða og er umlukinn örlitlu magni af frystilausn. Spaðanum er svo dýft snöggt ofan í fljótandi köfnunarefni og tekur þetta ferli aðeins nokkrar mínútur.

Á Livio Reykjavík er eingöngu notast við glerjunaraðferðina (Vitrification).

Þegar eggfruma er fryst er sama aðferð notuð nema frystilausnirnar eru öðruvísi.