Frumuskipting fósturvísa

Frjóvgun á sér venjulega stað þegar eggi og sæðisfrumum er blandað saman. Daginn eftir að egg er tekið úr eggjastokki eiga tveir forkjarnar að sjást inn í eðlilega frjóvguðu eggi. Seinna sama dag renna forkjarnarnir saman og fyrsta frumuskiptingin á sér stað.  Næstu daga á eftir heldur fósturvísirinn áfram að skipta sér.

Tveimur dögum eftir eggheimtu ætti fósturvísirinn að hafa 4-6 frumur og á degi 3 ætti fósturvísirinn að vera orðin 8-12 frumur. Frumuskipting heldur áfram og á degi 4 renna frumurnar saman og fósturvísirinn verður að morulu en á fimmta degi verður fósturvísirinn að kímblöðru (blastocyst).

Myndin sýnir fósturvísi á mismunandi stigum ræktunar (D=dagar).