Glasafrjóvgun – IVF

Glasafrjóvgun – IVF

IVF er skammstöfun fyrir „In vitro fertilisation” eða frjóvgun utan líkamans. Þroskuð egg eru sótt í eggjastokkana, frjóvguð á rannsóknastofunni og færð til baka inn í legið nokkum dögum síðar.

IVF þýðir eiginlega frjóvgun í glasi. IVF er skammstöfun yfir meðferðina við ófrjósemi sem í daglegu tali nefnist hefðbundin glasafrjóvgun. Frjóvgunin á sér þó ekki stað í glasi og ekki heldur í tilraunaglasi. Hvar þá? Frjóvgun á eggi með sæðisfrumum gerist utan við líkama konunnar við stýrðar aðstæður. Með lítils háttar aðgerð eru eggin sótt úr eggjastokkunum. Tímasetning aðgerðarinnar ákvarðast þegar eggbú eru fullvaxin og eggin þroskuð. Eggin og sæðið eru sett saman í vökva sem hefur svipaða samsetningu og líkamsvessar konunnar. Eggið, sæðið og svo hið frjóvgaða egg eru geymd í hitaskáp við 37°C. Frjóvgunin gerist venjulega innan 18 klst. Síðan er fósturvísirinn ræktaður í 2-5 daga. Því næst er fósturvísinum komið fyrir í legi konunnar. IVF er stundum ranglega nefnt gervifrjóvgun en er í raun aðstoð við frjóvgun. Sjálf frjóvgunin gerist í raun á náttúrulegan hátt og árangurinn ræðst af hæfni sáðfrumnanna sjálfra og eiginleikum þeirra og eggjanna til frjóvgunar. Eggin og sáðfrumurnar hjálpast að við að nálgast hverja aðra en fá til þess utanaðkomandi aðstoð.

Hvers vegna að velja hefðbundna glasafrjóvgun ?

Það eru margar góðar og gildar ástæður fyrir því að par velur að fara í hefðbundna glasafrjóvgun. Sumar konur hafa lent í því að eggjaleiðararnir hafa skemmst og það getur hindrað sáðfrumur í að ná til eggsins. Mismunandi ástæður eru fyrir þess háttar vandamálum. Meðal annars geta sýkingar, utanlegsfóstur og legslímuflakk valdið skemmdum á eggjaleiðurum þannig að frjóvgun verður ekki. Í öðrum tilfellum getur truflun á hormónabúskap valdið truflun á egglosi. Í slíkum tilfellum getur hefðbundin glasafrjóvgun verið góð leið til að ná eðlilegri þroskun og frjóvgun á eggjunum. Hefbundin glasafrjóvgun er góð meðferð við óskýrðri ófrjósemi þar sem engin orsök hefur fundist.

Hjá mönnum með of fáar sæðisfrumur ná frumurnar ekki að finna leiðina gegnum legið til eggsins og því verður ekki frjóvgun. Við hefðbundna glasafrjóvgunarmeðferð er sæðisfrumunum komið fyrir nálægt eggjunum. Þegar sæðisprufur eru mjög óeðlilegar er hægt að frjóvga eggin með smásjárfrjóvgun (ICSI), þar sem einni sæðisfrumu er komið fyrir inni í eggi undir smásjá. Börn sem fæðast eftir hefðbundna glasafrjóvgun þroskast alveg á sama hátt og börn sem eru getin við nattúrulegar aðstæður.